Innlent

Dag­legum lokunum við gos­stöðvarnar af­létt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gosið var tilkomumikið á meðan það stóð yfir en því virðist lokið, að minnsta kosti í bili.
Gosið var tilkomumikið á meðan það stóð yfir en því virðist lokið, að minnsta kosti í bili. Vísir/Vilhelm

Opið verður inn á gossvæðið við Litla Hrút á Reykjanesskaga í dag, frá Suðurstrandavegi. Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að daglegum lokunum hafi verið aflétt.

Yfirvöld höfðu áður ákveðið að loka gönguleiðum á kvöldin og næturnar.

Lokun gönguleiða frá klukkan 18 í gærkvöldi gekk vel að sögn Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra en alla daga þiggi nokkrir ferðamenn aðstoð viðbragðsaðila. Nóttin var hins vegar tíðindalaus.

Í gær fóru 669 svokallaða Meradalaleið en 726 eldri gönguleiðir.

Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn verða á svæðinu í dag og björgunarsveitir munu sinna útköllum en verða ekki með stöðuga viðveru. „Fyrirkomulag eftirlits kallar á ábyrgða hegðun ferðamanna,“ segir í tilkynningunni frá lögreglustjóranum.

Enn og aftur er ítrekað að hættusvæði merkt á meðfylgjandi korti séu bannsvæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Þá er fólk sem hyggst leggja leið sína að gosstöðvunum minnt á að klæða sig eftir veðri, hafa með vatn og nesti og næga hleðslu á farsímum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×