Innlent

Við­bragðs­aðilar taka gos­hléi fagnandi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Meiri ró er að færast yfir gosstöðvarnar.
Meiri ró er að færast yfir gosstöðvarnar. Vísir/einar

Erfiðlega gengur að manna vaktir bæði hjá lögreglu og björgunarsveitum þessa dagana á eldgosasvæðinu á Reykjanesskaga. Að sögn yfirlögregluþjóns hefur goshlé ekki mikil áhrif á störf viðbragðsaðila á svæðinu sem þó hafi komið á besta tíma. 

Síðdegis í gær lýsti Veðurstofa Íslands yfir goshléi á eldgosinu við Litla Hrút á Reykjanesskaga, þar sem gosið hefur síðan 10.júlí.

Gosórói hafði minnkað jafnt og þétt og klukkan 15 í gær var hann kominn aftur í svipaðan styrkleika og fyrir gos. Jarðskjálftamælar Veðurstofunnar hafa ekki numið neina virkni í nótt en þó þykir enn ekki tímabært að lýsa yfir goslokum þar sem dæmi eru um að gos á þessum slóðum geti hafist á ný eftir að hafa fjarað út.

Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum standa enn vaktina á svæðinu.

„Veðurstofan kemur til með að endurmeta hættumat sitt í vikunni en að öðru leiti hefur þetta ekki mikil áhrif í sjálfu sér á störf viðbragðsaðila. en það er ljóst að ferðamönnum fer fækkandi dag frá degi á meðan ekki gýs,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. 

Hann segir aðalega erlenda ferðamenn hafa verið á svæðinu í gær. Áfram verður opið inn að gossvæðinu frá Suðurstrandavegi í dag en þrátt fyrir að hlé hafi orðið á gosinu verður svæðið áfram lokað frá klukkan sex.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að goslok myndu hafa jákvæð áhrif bæði fyrir björgunarsveitir og lögreglu.Vísir/Baldur

Gengur erfiðlega að manna vaktir

Úlfar segir að séð frá frá sjónarhorni lögreglu hafi goshléið komið á besta tíma.

„Það verður að segjast eins og er að okkur gengur mjög erfiðlega að manna vaktir, bæði lögreglu og björgunarsveita, ég tala nú ekki um þessa helgi, Verslunarmannahelgina. En ef það dregur áfram úr þessu og hvað þá ef þetta er búið, þá kemur það til með að hafa jákvæð áhrif bæði fyrir björgunarsveitir og lögreglu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×