Mýrarboltinn leit loks aftur dagsins ljós en hann hafði ekki verið haldinn síðan árið 2019, þá á Ísafirði. Á Ströndum í Trékyllisvík var Mýrarboltinn haldinn hátíðlegur í dag.
Síldarævintýrið á Siglufirði fer að auki fram um helgina. Við Síldarminjasafnið fór fram síldarsöltun og bryggjuball í dag. Gestir tóku lagið niðri á höfn.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum var aðfaranótt laugardags nokkuð róleg, en um fimmtán fíkniefnamál komu inn á borð hennar og þjóðhátíðargestur sló til fíkniefnaleitarhunds.
Þjóðhátíðarstemningin var svo sannarlega við lýði í dag en Söngvakeppni barna var haldin að vana og ekki vantaði upp á stemninguna í hvítu tjöldunum.
Færri eru á Akureyri en oft áður og samkvæmt upplýsingum lögreglu hefur þar sömuleiðis verið rólegt. Á Einni með öllu var þó ekki síður stemning en á Ráðhústorginu var skrautlegur markaður þar sem gestir og gangandi gátu keypt sér ýmiss konar muni. Ivan Vujcic sá um veitingar.