Innlent

Leggst gegn á­formum um þyrlu­flug á Hólms­heiði

Árni Sæberg skrifar
Mikinn fjöldi fólks fer í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar á Reykjanesi.
Mikinn fjöldi fólks fer í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar á Reykjanesi. Vísir/Vilhelm

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur varar við hugmyndum um að þyrluflug verði flutt frá Reykjavíkurflugvelli á Hólmsheiði. Þær leysi engan vanda heldur flytji hann einungis til innan svæðisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skógræktarfélagsins í tengslum við umræðu um vaxandi ónæði af þyrluflugi á höfuðborgarsvæðinu. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði á dögunum að borgaryfirvöld væru nú að skoða hvort flugvöllur á Hólmsheiði sé mögulegur kostur sem gæti nýst útsýnisfluginu til frambúðar.

„Tíðar þyrluferðir frá Hólmsheiði myndu valda verulegu ónæði fyrir íbúa á austursvæðum borgarinnar og gesti nærliggjandi útivistarsvæða. Friðlandið í Heiðmörk, útivistarsvæðin við Rauðavatn og allt um kring, njóta sívaxandi vinsælda. Gróður á svæðunum er í mikilli framför, þökk sé óeigingjörnu starfi fyrri kynslóða sem ræktuðu upp illa farið land, gagngert til þess að fólk geti þar notið friðs og endurnærst í náttúrunni. Gróðursældin, náttúran og skjólið eru ómetanleg fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu borgarbúa,“ segir í tilkynningu stjórnarinnar.

Vilja engar skyndilausnir

Þá segir að viðvarandi hávaðamengun vegna þyrluflugs myndi spilla verulega ánægjunni af því að heimsækja þessar útivistarperlur og njóta náttúrunnar. Þá sé hætt við að það ógni því mikla og fjölbreytta fuglalífi sem er í Heiðmörk.

„Skógræktarfélag Reykjavíkur skorar á borgaryfirvöld að ráðast ekki í skyndilausnir þar sem miklum umhverfisverðmætum er fórnað án nokkurs sýnilegs ávinnings.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×