Fótbolti

Hylltar sem hetjur eftir eitt stig á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Írsaka liðið með stuðningsmennina í baksýn.
Írsaka liðið með stuðningsmennina í baksýn. Twitter/@IrelandFootball

Um 8.000 stuðningsmenn mættu til að taka á móti og hylla leikmenn írska kvennalandsliðsins í fótbolta eftir komu liðsins heim til Írlands af HM í Eyjaálfu.

Írska liðið náði því sem því íslenska tókst ekki, með því að komast í fyrsta sinn á HM með sigri í umspili síðasta haust, gegn Skotlandi.

Írar áttu svo í fullu tré við mótherja sína í B-riðlinum á HM en töpuðu 1-0 fyrir heimakonum í Ástralíu, og 2-1 gegn ólympíumeisturum Kanada eftir að hafa komist yfir. Írar náðu svo í sitt eina stig með markalausu jafntefli við Nígeríu í lokaleik.

Þrátt fyrir að liðið hafi endað í neðsta sæti síns riðils er ljóst að það hefur heillað írsku þjóðina því móttökurnar líktust því að nýkrýndir heimsmeistarar væru að snúa heim til Írlands. Eins og fyrr segir mættu um 8.000 manns á O‘Connell Street í Dublin, þar sem glatt var á hjalla í grænni og góðri stemningu.

FIFA hækkaði verulega verðlaunafé fyrir mótið og fær hver leikmaður sem fór á HM jafnvirði um fjögurra milljóna króna í sinn hlut. Þeir leikmenn sem komust áfram í 16-liða úrslitin fá hins vegar fjórar milljónir til viðbótar hver, og leikmenn heimsmeistaraliðsins fá 36 milljónir hver í sinn hlut.

Leikmenn írska liðsins grétu hins vegar ekki glataðar milljónir heldur dönsuðu og sungu með stuðningsmönnum, og þjálfarinn Vera Pauw var ein sú glaðasta og hrópaði „næst stefnum við á verðlaun“.

Markvörðurinn Courtney Brosnan sagði: „Mér finnst það algjörlega stórkostlegt að geta verið ungum stelpum hvatning til að láta drauma sína rætast. Sérstaklega næstu kynslóð markvarða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×