Fótbolti

Ramos frestar viðræðum við Sádana til að reyna að komast til Messi í Miami

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi og Sergio Ramos gætu haldið áfram að spila saman.
Lionel Messi og Sergio Ramos gætu haldið áfram að spila saman. getty/Ian MacNicol

Sergio Ramos, fyrrverandi fyrirliði Real Madrid, hefur slegið viðræðum við félög í Sádi-Arabíu á frest til að freista þess að semja við Inter Miami sem Lionel Messi leikur með.

Eftir að hafa verið mótherjar í mörg ár í Barcelona og Real Madrid léku Messi og Ramos saman hjá Paris Saint-Germain á síðustu tvö tímabil.

Messi gekk í raðir Inter Miami í sumar en Ramos er enn án félags eftir að samningur hans við PSG var ekki framlengdur.

Ramos hefur verið orðaður við félög í Sádi-Arabíu og nú síðast við Inter Miami. Samkvæmt Mundo Deportivo bíður Ramos nú eftir tilboði frá Inter Miami sem er í eigu Davids Beckham. Ef það gengur ekki er Ramos tilbúinn að fara til Sádi-Arabíu eins og svo margir leikmenn hafa gert undanfarin misseri.

Auk Messis hefur Inter Miami samið við fyrrverandi samherja hans hjá Barcelona, Sergio Busquets og Jordi Alba. Þeir þekkja Ramos vel eftir að hafa leikið með honum í spænska landsliðinu.

Messi hefur farið vel af stað með Inter Miami og skorað fimm mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×