Fótbolti

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hættir með Keflavík eftir tímabilið

Siggeir Ævarsson skrifar
Það hefur oft verið léttara yfir Sigga Ragga á hliðarlínunni en í sumar
Það hefur oft verið léttara yfir Sigga Ragga á hliðarlínunni en í sumar Vísir/Pawel

Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari liðsins, láti af störfum í lok tímabilsins. Keflavík situr á botni Bestu deildarinnar með tíu stig og aðeins einn sigur eftir 17 umferðir.

Sigurður hefur verið við stjórnvölin hjá Keflavík síðan í október 2019 og er því á sínum fjórða tímabili með liðið. Sumarið 2020 vann Keflavík Lengjudeildina undir hans stjórn og endaði svo í 7. sæti Bestu deildarinnar sumarið eftir. 

Árangurinn hefur látið á sér standa í sumar en liðið hefur aðeins landað einum sigri í 17 leikjum en Sigurður mun þó stýra liðinu til loka tímabilsins, samkvæmt yfirlýsingu sem Keflavík og hann gáfu frá sér áðan:

„Sameiginleg yfirlýsing frá Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurði Ragnari Eyjólfssyni þjálfara mfl. karla

Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari meistaraflokks karla í Bestu deildinni hafa ákveðið að ljúka samstarfi sínu að loknu þessu keppnistímabili í október næstkomandi.

Keppnistímabilið í ár er fjórða keppnistímabil Sigurðar hjá félaginu og á hans fyrsta ári vann Keflavík Lengjudeildina og hefur síðan þá leikið í Bestu deildinni. Í fyrra endaði liðið í 7.sæti sem er besti árangur Keflavíkur síðastliðin 12 ár. Það er enn óljóst í hvaða sæti liðið lendir nú í ár en baráttan í Bestu deildinni er hörð og ennþá í gangi. Báðir aðilar hafa hins vegar komist að samkomulagi um að best sé að leiðir skilji að loknu móti í október, ákvörðunin er tekin með vinsemd og virðingu beggja aðila fyrir hvorum öðrum.

Áfram Keflavík!

Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×