Innlent

Banda­ríkja­menn þurfa að greiða gjald áður en komið er til Ís­lands

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill fjöldi ferðamanna kemur til Íslands frá Bandaríkjunum á hverju ári og mynda Bandaríkjamenn gjarnan einn stærsta einstaka hóp ferðalanga. 
Mikill fjöldi ferðamanna kemur til Íslands frá Bandaríkjunum á hverju ári og mynda Bandaríkjamenn gjarnan einn stærsta einstaka hóp ferðalanga.  Vísir/Vilhelm

Til stendur að taka upp nýtt ETIAS-ferðaheimildakerfi á Schengen-svæðinu sem gerir það að verkum að handhafar vegabréfa sem þurftu áður ekki vegabréfsáritun munu þurfa að sækja um ferðaheimild áður en lagt er af stað til Íslands.

Mun þetta meðal annars hafa áhrif á handhafa bandarískra og breskra vegabréfa sem mynda tvö stærstu þjóðerni erlendra ferðamanna hér á landi. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu voru tæplega 41 prósent erlendra farþega sem fóru frá Keflavíkurflugvelli síðasta árið ýmist með bandarískt eða breskt ríkisfang. 

Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, og Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir ferðamálaráðherra telja ekki að nýja ferðaheimildakerfið muni hamla för bandarískra ferðamanna til Íslands.

Áætlað er að ETIAS komi í gagnið á næsta ári eftir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frestaði innleiðingu nýja kerfisins.

Svipað og bandaríska ESTA-fyrirkomulagið

Með tilkomu ETIAS mun fólk þurfa að sækja um ferðaheimild á netinu, framvísa þar vegabréfi og greiða umsóknargjald sem nemur rúmum þúsund krónum, áður en lagt er af stað til Schengen-ríkis. Ef ferðaheimildin er samþykkt gildir hún í þrjú ár eða þar til vegabréfið rennur út.

„Ég held að þetta eigi ekki að hafa hamlandi áhrif á ferðalög Banda­ríkja­manna til Evr­ópu, ekk­ert frek­ar en ESTA-kerfið hef­ur hamlandi áhrif á ferðalög Evr­ópu­manna til Banda­ríkj­anna,“ segir Jóhannes Þór í samtali við Morgunblaðið og vísar þar til svipaðs kerfis sem hefur lengi verið við lýði í Bandaríkjunum. 

Hann telur að ferðalangar verði fljótir að venjast kerfinu ef það virki sem skyldi en mikilvægt sé að kynna breytingarnar vel. Jóhannes Þór hefur ekki trú á því að breytingarnar komi til með að draga úr komum bandarískra ferðamanna til Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×