Innlent

„Þurfum greinilega að gera betur“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

„Ég þarf engar ráðleggingar frá Sigmundi Davíð þó það sé alltaf gaman að hlusta á hann. Hann er svolítill spéfugl og hefur gaman af því að tala.“ Þetta segir Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins innt eftir viðbrögðum við ummælum formanns Miðflokksins, sem segir Sjálfstæðisflokkinn orðinn að „umbúðaflokki“.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var fjallað um óánægju áhrifamanna innan Sjálfstæðisflokksins með stjórnarsamstarfið og málamiðlanir í ríkisstjórninni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði fýlupúkafélag Sjálfstæðisflokksins vera mætt aftur, það er félagið sem kvartar og kvartar en geri aldrei neitt.

Bryndís Haraldsdóttir ræddi ólgu innan flokks síns í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

„Það eru áhrifamenn innan flokksins sem hafa stigið fram og viljað sjá okkur gera betur og ég bara tek það til mín sem þingmaður flokksins. Við þurfum greinilega að gera betur,“ segir Bryndís.

„Því er ekki að leyna að við erum í sérstöku stjórnarsamstarfi þar sem við fáum ekki öll okkar mál í gegn. Við verðum samt að mun að ná mikilvægum málum í gegn, bara á síðustu árum. Meðal annars útlendingamálið margumrædda sem fór of seint í gegn. Við eigum eftir að sjá áhrif þess koma fram í stjórnkerfinu.“

Hún nefnir einnig rammaáætlun sem hafi verið samþykkt. Hún segir vit í stjórnarsamstarfinu en vill að flokkurinn standi sig betur til að tryggja „sjálfstæðisstefnuna“.

Hvernig er hægt að lægja öldurnar?

„Ég veit ekki hvort við þurfum að nota orðin „lægja öldurnar“. Við þurfum að tala saman og tala skýrt. Gera samstarfsflokkum okkar það ljóst að það eru nokkur mál sem við verðum að ná í gegn og verðum að sameinast um. Talandi um fýlupúkafélag þá er ég nú meira í bjartsýnisfélaginu og ég hef bara fulla trú á því að við í meirihlutanum getum náð utan um þessi verkefni,“ segir Bryndís að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×