Fótbolti

Komið að ögurstundu fyrir Noreg

Siggeir Ævarsson skrifar
Sophie Roman Haug trúir ekki eigin augum eftir glatað marktækifæri gegn Sviss
Sophie Roman Haug trúir ekki eigin augum eftir glatað marktækifæri gegn Sviss Vísir/AP

Norska landsliðið gæti verið á heimleið af Heimsmeistaramóti kvenna eftir daginn í dag. Ekkert nema sigur gegn Filipseyjum dugar þeim mögulega til að komast áfram úr A-riðli.

Norðmenn hafa ekki riðið feitum hesti frá fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlinum og sóknarmenn liðsins sem eru stórar stjörnur með félagsliðum sínum hafa ekki enn fundið netmöskvana á mótinu. Noregur situr í neðsta sæti A-riðils með eitt stig og markatöluna 0-1.

Klukkan 07:00 hófust lokaleikirnir í riðlinum og Noregur verður bæði að vinna sinn leik og treysta á hagstæð úrslit í leik Sviss og Nýja-Sjálands. Fyrir leikinn var Sviss með fjögur stig og Nýja-Sjáland þrjú. Efstu tvö liðin í hverjum riðli komast áfram en ef lið eru jöfn að stigum þá ræður markamunurinn úrslitum.

Ef markamunurinn er sá sami þá kemst liðið sem hefur skorað fleiri mörk áfram en Sviss var fyrir leiki dagsins með tvö mörk skoruð og markamun sömuleiðis tvö mörk í plús. Ef Sviss vinnur Nýja-Sjáland og Noregur vinnur Filipseyjar fer Noregur í fjögur stig og beint áfram. Ef Sviss aftur á móti tapar meðan Noregur vinnur verða liðin jöfn að stigum.

Lokaniðurstaðan í A-riðli er því algjörlega óráðin þegar þetta er skrifað og verður spennandi að sjá hvernig leikir dagsins fara og hvort vonbrigðamót Noregs klárast í dag eða hvort þær ná að rétta úr kútnum á ögurstundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×