Fótbolti

Verratti bætist í hóp Arabíufara | Eyðslan yfir tvö hundruð milljónir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Marco Verratti er hrifnari af því að spila fyrir Al-Hilal en félagi sinn Kylian Mbappé.
Marco Verratti er hrifnari af því að spila fyrir Al-Hilal en félagi sinn Kylian Mbappé. John Berry/Getty Images

Ítalinn Marco Verratti hefur náð samkomulagi við Al-Hilal í Sádi-Arabíu um að spila með liðinu í úrvalsdeildinni þar í landi á komandi vetri. Hann fer til liðsins frá Paris Saint-Germain í Frakklandi.

Fabrizio Romano er á meðal þeirra sem greinir frá því að viðræður milli Verratti og sádíska félagsins séu langt komnar. Al-Hilal reyndi að gera liðsfélaga hans Kylian Mbappé að bæði dýrasta og launahæsta leikmanni sögunnar en í gær var greint frá því að sá franski hafi hafnað boðinu.

Verratti virðist hins vegar hrifinn af því að flytja að Persaflóa og fær að líkindum væna þóknun fyrir.

Hann verður þriðji miðjumaðurinn sem félagið festir kaup á í sumar á eftir Portúgalanum Rúben Neves, sem kom frá Wolves á Englandi, og Serbanum Sergej Milinkovic-Savic, sem kom frá Lazio á Ítalíu. Þá fékk Al-Hilal einnig miðvörðinn Kalidou Koulibaly frá Chelsea og Brasilíumanninn Malcom frá Zenit í Rússlandi.

Verratti hefur leikið fyrir PSG frá árinu 2012 og átti samning til sumars 2026. Talið er að sádíska liðið geri þriggja ára samning við Ítalann og borgi PSG um 30 milljónir evra fyrir kauða.

Þá er Verratti ekki eini miðjumaðurinn á förum frá PSG en Renato Sanches er ekki í áformum liðsins og líklega á leið til Roma á Ítalíu, mögulega á láni.

  • Kaup Al-Hilal frá Evrópu í sumar
  • Kalidou Koulibaly frá Chelsea á 20 milljónir evra
  • Rúben Neves frá Wolves á 60 milljónir evra
  • Sergej Milinkovic-Savic frá Lazio á 40 milljónir evra
  • Malcom frá Zenit á 65 milljónir evra
  • Marco Verratti frá PSG á 30 milljónir evra*

Alls: 215 milljónir evra* þegar skipti Verratti ganga í gegn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×