Fótbolti

Fimm stjörnu spænsk frammistaða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jennifer Hermoso skoraði tvö mörk í hundraðsta landsleik sínum.
Jennifer Hermoso skoraði tvö mörk í hundraðsta landsleik sínum. getty/Buda Mendes

Spánn er kominn áfram í sextán liða úrslit HM í fótbolta kvenna eftir stórsigur á Sambíu í dag, 5-0.

Eftir úrslit dagsins er ljóst að Spánn og Japan fara upp úr C-riðli. Eina spurningin er hvort liðið vinnur riðilinn. Sambía og Kosta Ríka eru úr leik.

Teresa Abelleira kom Spánverjum á bragðið í leiknum í dag með frábæru marki með langskoti á 9. mínútu. 

Fjórum mínútum síðar bætti Jenni Hermoso öðru marki við í sínum hundraðsta landsleik. Hún skallaði þá fyrirgjöf Alexiu Putellas í netið. Staðan var 2-0 í hálfleik.

Spánverjar skoruðu svo þrjú mörk í seinni hálfleik. Alba Redondo, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, gerði þriðja markið á 69. mínútu og Hermoso skoraði sitt annað mark og fjórða mark Spánar fjórum mínútum síðar. Hún hefur skorað fimmtíu mörk í landsleikjunum hundrað.

Barbra Banda, fyrirliði Sambíu, komst næst því að koma sínum konum á blað þegar hún skaut í slá á 81. mínútu. Tveimur mínútum seinna var Hermoso hársbreidd frá því að skora þriðja mark sitt en Eunice Sakala varði skot hennar í slá.

Redondo skoraði síðan fimmta mark Spánar fjórum mínútum fyrir leikslok. Líkt og fjórða markið var það dæmt gilt eftir skoðun á myndbandi.

Spánn er á toppi C-riðils og dugir jafntefli gegn Japan í lokaumferð riðlakeppninnar til að vinna riðilinn. Sambía hefur tapað báðum leikjum sínum á HM 5-0 og mætir Kosta Ríka í lokaumferð riðlakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×