Fótbolti

Þjálfari Hollands drullar yfir æfinga­að­stöðu liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonker er ekki sáttur.
Jonker er ekki sáttur. EPA-EFE/BIANCA DE MARCHI

Andries Jonker, þjálfari hollenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er allt annað en sáttur með æfingaaðstöðu liðsins í Nýja-Sjálandi þar sem heimsmeistaramótið fer nú fram.

Holland hefur leik á morgun, sunnudag, þegar liðið mætir Portúgal í leik sem mun að öllum líkindum ákvarða hvort liðið fer með Bandaríkjunum upp úr E-riðli. Jonker telur ekki að aðstæðurnar sem Holland æfir við muni hjálpa liðinu.

„Þegar við komum hingað á miðvikudag hugsaði ég með mér að við myndum ekki æfa hér. Við höfum áður lýst yfir áhyggjum okkar yfir því að æfa á krikketvelli. Var okkur lofað hinu og þessu en það var ekki staðið við það. Við erum mjög óánægðar og reiðar.“

Þjálfarinn hafði áður kvartað yfir því að æfingaaðstaða liðsins væri Bay Oval-krikket völlurinn. Er hann með hörðum „krikket-ferningi“ í miðjunni.

„Við viljum eiga góðan leik gegn Portúgal, við viljum að undirbúningurinn sé sem bestur og að við getum þannig átt gott mót þar sem við teljum okkur vera með topplið. Þetta passar ekki við það. Þetta er eins og áhugamennska af verstu gerð.“

„Við getum æft ýmislegt en að spila 11 gegn 11 er ekki hægt,“ sagði Jonker og átti þar við ferninginn í miðju vallarins.

Jonker sagði að í raun væru tveir hlutir í stöðunni. Liðið gæti farið degi fyrr til Dunedin þar sem það mætir Portúgal en þá þarf að endurskipuleggja ferðina frá A til Ö. Panta nú flug, bóka ný hótel og því um líkt.

Þá gæti liðið keyrt til Hamilton en það er 90 mínútna akstur í báðar áttir. „Við værum á ferðinni frá 10 um morguninn til 18 um daginn fyrir eina æfingu,“ sagði þjálfarinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×