Fótbolti

Víta­spyrnur á­fram þemað í öruggum sigrum Banda­ríkjanna og Japans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sophia Smith fagnar öðru marka sinna.
Sophia Smith fagnar öðru marka sinna. Ulrik Pedersen/Getty Images

Tveir leikir fóru fram á HM kvenna i knattspyrnu í nótt. Bandaríkin unnu Víetnam 3-0 og Japan vann Zambíu 5-0. Vítaspyrnur voru dæmdar í báðum leikjum sem þýðir að það hefur verið bent á vítapunktinn í öllum leikjum mótsins til þessa.

Bandaríkin áttu ekki í teljandi vandræðum með Víetnam í nótt. Sophia Smith – sem átti án efa bestu auglýsinguna í aðdraganda mótsins – braut ísinn eftir aðeins 14. mínútur.

Alex Morgan, sem lagði upp fyrsta markið, fékk svo gullið tækifæri til að í raun ganga frá leiknum undir lok fyrri hálfleiks þegar Bandaríkin fengu vítaspyrnu. Spyrna hennar fór hins vegar forgörðum og það stefndi í að staðan yrði 1-0 í hálfleik.

Áðurnefnd Smith var ekki á þeim buxunum en hún tvöfaldaði forystuna þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. Staðan 2-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Lindsey Horan gerði svo endanlega út um leikinn á 77. mínútu þegar hún skoraði eftir sendingu frá Smith. Frábær leikur hjá henni og öruggur 3-0 sigur Bandaríkjanna staðreynd. Næstu tveir leikir liðsins verða án efa erfiðari þar sem Portúgal og Holland eru einnig í E-riðli.

Japan á topp C-riðils

Það tók Japan smá tíma að ganga frá Zambíu í morgunsárið. Mina Tanaka hélt hún hefði komið Japan yfir um miðbik fyrri hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Hinata Miyazawa kom þeim hins vegar yfir undir lok fyrri hálfleiks og Japan 1-0 yfir í hálfleik.

Tanaka skoraði aftur í síðari hálfleik og aftur var það dæmt af. Allt er hins vegar þegar þrennt er en Tanaka kom boltanum í netið í þriðja skiptið á 55. mínútu og loks stóð markið, staðan orðin 2-0.

Miyazawa bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Japans skömmu síðar áður en Jun Endo kom Japan í 4-0. Í uppbótartíma fékk Catherine Musonda, markvörður Zambíu, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Vítaspyrna var dæmd og Riko Ueki fór á punktinn.

Eunice Sakala kom í markið varði spyrnu Ueki. Sakala fór hins vegar af línunni svo taka þurfti spyrnuna aftur. Þá skoraði Ueki og leiknum lauk með þægilegum 5-0 sigri Japans sem er nú komið á topp C-riðils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×