Erlent

Vél rýmd vegna veikinda far­þega eftir langa bið í 37 stiga hita

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld vilja svör við því hvers vegna farþegum var haldið í sjóðheitri vélinni.
Yfirvöld vilja svör við því hvers vegna farþegum var haldið í sjóðheitri vélinni. Getty/NurPhoto/Nicolas Economou

Samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú hvers vegna flugvél Delta Air Lines var kyrrsett á Harry Reid International Airport í Las Vegas í nokkrar klukkustundir í yfir 37 stiga hita á mánudag.

Vélin átti að fljúga til Atlanta en fór aldrei á loft. Þess í stað voru farþegarnir látnir bíða í þrjá tíma, þar til svo margir þeirra höfðu veikst vegna hitans að vélin var rýmd. Sjúkraflutningamenn þurftu að sækja þrjá farþega sem höfðu fallið í yfirlið.

Að sögn Kristu Garvin, framleiðanda hjá Fox News sem átti bókað flug þennan dag, var farþegum fyrst tilkynnt að það væri ekki hægt að innrita farþega á réttum tíma þar sem það vantaði flugliða. 

Eftir að farþegar fengu loks að fara um borð neyddust þeir svo til að bíða í þrjá tíma í viðbót, við vægast sagt ömurlegar aðstæður.

„Þeir sögðu okkur að ýta á þjónustuhnappinn ef okkur vantaði aðstoð. Börn eru að öskurgráta. Þeir eru að afhenda sykursjúkum samlokur,“ tísti Garvin.

Annar farþegi sagði að hún hefði orðið uppiskroppa með mat og bleyjur fyrir son sinn á meðan biðinni stóðþ Hann hefði sem betur fer verið rólegur. Annar sagði að fólk hefði ekki fengið vatn og að salernin hefðu verið lokuð.

Að sögn Garvin var ákveðið að rýma vélina þar sem margir farþegar voru orðnir veikir sökum hitans og það átti að freista þess að kæla niður vélina. Þá var farþegum tilkynnt að áhöfnin hefði veikst.

Delta hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um atvikið en segir málið í skoðun en Pete Buttigieg samgönguráðherra hefur krafið flugvélagið svara um það hvers vegna fólk var látið bíða svo lengi um borð í steikjandi hita.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×