Enski boltinn

Samkomulag í höfn á milli Liverpool og Al Ettifaq

Smári Jökull Jónsson skrifar
Henderson er staddur í Þýskalandi þessa stundina en þar er Liverpool í æfingabúðum.
Henderson er staddur í Þýskalandi þessa stundina en þar er Liverpool í æfingabúðum. Vísir/Getty

Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Jordan Henderson yfirgefi Liverpool. Hann er sjálfur búinn að ná samkomulagi við Al Ettifaq og nú virðast félögin vera að ná saman sömuleiðis.

Fréttirnar um áhuga Al Ettifaq á fyrirliða Liverpool komu nokkuð á óvart þegar þær bárust í síðustu viku. Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool, er nýtekinn við sem þjálfari sádiarabíska liðsins og var ekki lengi að hafa samband við Henderson og sitt gamla félag.

Henderson náði samkomulagi við Al Ettifaq í síðustu viku um sinn samning en þá bar töluvert á milli hjá félögunum en Liverpool vildi fá 20 milljónir punda fyrir hinn 33 ára gamla fyrirliða sinn. 

Nú virðist hins vegar sem samkomulag sé í höfn. Blaðamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því á Twitter að félögin séu búin að ná saman og hefur meira að segja skellt hinum víðfræga „Here we go!“ stimpli á félagaskiptin.

Samkvæmt Skysports er kaupverðið 12 milljónir punda sem er nokkuð frá því sem Liverpool ætlaði sér að fá. Henderson mun skrifa undir tveggja ára samning við Al Ettifaq með möguleika á eins árs framlengingu til viðbótar. Hann fær 200.000 pund í vikulaun samkvæmt nýjum samningi eða um 34 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×