Fótbolti

Skoraði þrennu á móti Ronaldo og fékk mynd af sér með honum í leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jörgen Strand Larsen með Cristiano Ronaldo eftir leikinn.
Jörgen Strand Larsen með Cristiano Ronaldo eftir leikinn. Instagram/@strandlarsen

Norski framherjinn Jörgen Strand Larsen var stærsta stjarnan í fyrsta undirbúningsleiknum hjá liði Cristiano Ronaldo.

Spænska liðið Celta Vigo vann þá 5-0 sigur á Al-Nassr.

Larsen skoraði þrennu í leiknum en Cristiano Ronaldo var markalaus eins og liðsfélagar hans.

„Það er alltaf gaman að skora mörk. Það er það skemmtilegasta við fótboltann og þetta var sérstök stund þegar ég fékk að hitta Ronaldo sjálfan,“ sagði Jörgen Strand Larsen við norska ríkisútvarpið.

Ronaldo spilaði aðeins fyrri hálfleikinn í leiknum.

„Það var gaman að sjá hversu góður hann er enn þá þrátt fyrir að vera orðinn svona gamall. Það var tilkomumikið,“ sagði Larsen.

Larsen hitti Ronaldo eftir leikinn og fékk mynd af sér með honum.

„Það var alveg geggjað. Ég var að vonast eftir því að hann myndi hrósa mér fyrir þrennuna en hann sagði ekkert nema að óska mér góðs gengis á tímabilinu. Ég ímyndaði mér að það væri mikið uppistand í kringum hann og ég var því ekkert að biðja um treyjuna hans,“ sagði Larsen.

„Ég var smá stjörnustjarfur. Ég hélt að ég yrði það ekki en þetta er einn af bestu fótboltamönnum allra tíma ef ekki sá besti,“ sagði Larsen.

Jörgen Strand Larsen er 23 ára gamall og 193 sentímetrar á hæð. Hann er á sínu öðru ári með Celta Vigo eftir að hafa spilað áður í tvö tímabil með Groningen í Hollandi. Hann hóf meistaraflokksferil sinn með Sarpsborg 08 í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×