Íslenski boltinn

Skoraði eftir að skotið var í hann: Sjáðu mörk Stjörnu­manna í sigrinum á Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson fagnar marki sínu með reynsluboltanum Daníel Laxdal.
Eggert Aron Guðmundsson fagnar marki sínu með reynsluboltanum Daníel Laxdal. Vísir/Diego

Stjarnan sýndi styrk sinn með sannfærandi 2-0 sigri á Valsmönnum í Bestu deild karla í fótbolta í Garðabænum í gærkvöldi.

Guðmundur Kristjánsson og Eggert Aron Guðmundsson skoruðu mörk Stjörnumanna í leiknum, eitt í hvorum hálfleik.

Einhverjir héldu eflaust að Sindri Þór Ingimarsson væri að opna markareikning sinn í efstu deild í fyrra markinu en þegar betur var á gáð þá skaut hann í liðsfélaga sinn Guðmund Kristjánsson og þaðan fór boltinn í markið.

Guðmundur skoraði því í raun eftir að skotið var í hann og gat hann því lítið gert við því að boltinn fór í markið.

Seinna markið kom eftir einstaklingsframtak frá Eggerti Aron sem átti mjög góðan leik í gær og er að fylgja eftir frábærri frammistöðu sinni á EM nítján ára landsliða.

Með sigrinum þá komust Stjörnumenn upp í efri hluta deildarinnar en liðið er eitt af fjórum liðum sem eru með sautján stig í 6. til 9. sæti deildarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum í Garðabænum í gær.

Klippa: Mörkin úr leik Stjörnunnar og Vals í Bestu karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×