Fótbolti

Sleit kross­band í síðasta vin­áttu­leiknum fyrir HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Missir af HM og verður frá út árið.
Missir af HM og verður frá út árið. Daniel Kopatsch/Getty Images

Carolin Simon, leikmaður Bayern München, mun missa af HM kvenna í knattspyrnu eftir að hafa slitið krossband í hné í vináttuleik Þýskalands gegn Zambíu.

Hin þrítuga Simon kom vel inn í lið Bayern undir lok síðasta tímabils. Stóð hún vaktina í öftustu línu ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttir þegar liðið tryggði sér sigur í þýsku úrvalsdeildinni.

Spilaði hún stöðu vinstri bakvarðar og kom inn í þá stöðu þegar aðeins tæpur hálftími lifði leiks í leik Þýskalands og Zambíu. Það var í uppbótartíma sem Simon varð fyrir því óláni að slíta krossband og yfirgaf hún völlinn skömmu síðar.

Hvort annar leikmaður verður kallaður inn í þýska hópinn á eftir að koma í ljós en ljóst er að Simon spilar ekki meira á þessu ári hið minnsta. Um var að ræða síðasta leik beggja þjóða áður en HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi hefst þann 20. júlí.

Zambía vann leikinn 3-2 þökk sé dramatísku sigurmarki Barbra Banda þegar tíu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Alexandra Popp hafði jafnað metin fyrir Þýskaland þremur mínútum áður en allt kom fyrir ekki og Zambía vann óvæntan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×