Fótbolti

Á­sakaður um kyn­ferðis­brot rétt áður en HM fer af stað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruce Mwape hefur stýrt Sambíu frá árinu 2018.
Bruce Mwape hefur stýrt Sambíu frá árinu 2018. Tim Clayton/Getty Images

Bruce Mwape, þjálfari kvennaliðs Sambíu í knattspyrnu, hefur verið ásakaður um kynferðisbrot. Sambía er meðal liða sem keppir á HM kvenna sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi frá 20. júlí til 20. ágúst.

Frá þessu er greint á The Guardian. Þar segir að FAZ, Knattspyrnusamband Sambíu, hafi beðið FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, um aðstoð vegna málsins. Einnig segir að áskanirnar á hendur Mwape séu komnar á borð FIFA. Þá er Kaluba Kangwa, þjálfari U-17 ára landsliðs stúlkna, einnig undir rannsókn.

Það var í maí árið 2018 sem Mwape tók við sem landsliðsþjálfari kvenna hjá Sambíu. Tókst honum að koma liðinu á HM í fyrsta skipti í sögu þess. Knattspyrnusamband Sambíu bað FIFA um aðstoð vegna málsins í september á síðasta ári. Sambandið taldi kynferðislega misnotkun hafa átt sér stað innan raða þess og vildi aðstoð FIFA, sem og lögreglunnar í landinu, við að rannsaka málið. Mwape og Kangwa voru meðal þeirra starfsmanna sem voru rannsakaðir.

„Ef Mwape vill sofa hjá þér verður þú að segja já. Það er talið eðlilegt að þjálfarinn sofi hjá leikmönnum liðsins,“ sagði ónefndur leikmaður Sambíu í viðtali við The Guardian.

Þá segir heimildarmaður The Guardian að leikmenn séu hræddar við að segja frá þar sem þeim hafi verið hótað öllu illu. Sambandið hafi svo horft í hina áttina þar sem úrslit liðsins hafi verið góð.

Mwape vildi ekki svara fyrirspurn The Guardian og benti á fjölmiðlafulltrúa sambandsins. Sá vitnaði í yfirlýsingu sambandsins frá því á síðasta ári þar sem sagt var að rannsókn færi fram. Þar sagði að sambandið tæki ásökunum af þessum toga alvarlega og að FIFA sem og lögreglan ynnu að rannsókn málsins.

Sambía, ein af fjórum Afríkuþjóðum á HM, leikur í C-riðli ásamt Spáni, Kosta Ríka og Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×