Fótbolti

Insta­gram­klásúla í samningnum sem gæti reynst dýr­keypt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Felix Nmecha er nýr leikmaður Dortmund þrátt fyrir mótmæli stuðningsmanna.
Felix Nmecha er nýr leikmaður Dortmund þrátt fyrir mótmæli stuðningsmanna. Vísir/Getty

Á dögunum festi Borussia Dortmund kaup á hinum tuttugu og þriggja ára gamla Felix Nmecha frá Wolfsburg. Í samningi Nmecha er að finna klásúlu sem hefur vakið nokkra athygli.

Stuðningsmenn þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund voru ekkert yfir sig ánægðir þegar félagið tilkynnti um kaupinn á Felix Nmecha. Leikmaðurinn hefur nefnilega í þónokkur skipti tjáð sig á bæði trans- og hómófóbískan hátt á samfélagsmiðlum og vildu stuðningsmenn Dortmund meina að kaupin gengju gegn gildum félagsins.

Gekk þetta meira að segja svo langt að stuðningsmennirnir boðuðu til mótmæla vegna kaupanna en það hafði þó lítið að segja. Nmecha er orðinn leikmaður Dortmund og nú hefur komið í ljós að í samningi hans er að finna klásúlu sem er ansi forvitnileg.

Klásúlan hljóðar þannig að ef Nmecha brýtur gegn gildum félagsins á samfélagsmiðlum þá fær hann eina milljón evra í sekt, sem gerir tæplega 150 milljónir íslenskra króna.

Vonast forsvarsmenn Dortmund að þetta muni fá Nmecha til að hugsa sig tvisvar um áður en hann skellir í stöðuuppfærslu. Nmecha heldur því sjálfur fram að áðurnefnd innlegg hans á samfélagsmiðlum hafi verið tekin úr samhengi og hann lýsir sjálfum sér sem kristnum og að hann „elski allar manneskjur.“

Samningur Nmecha við Dortmund gildir til ársins 2028 en hann skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendinga í 30 deildarleikjum með Wolfsburg á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×