Fótbolti

Ný lög gegn kynþáttaníði nefnd í höfuðið á Vinícius Júnior

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vinícius Júnior hefur látið vel í sér heyra eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði.
Vinícius Júnior hefur látið vel í sér heyra eftir að hafa orðið fyrir kynþáttaníði. Aitor Alcalde Colomer/Getty Images

Yfirvöld í brasilísku stórborginni Rio de Janiero hafa ákveðið að nefna ný lög gegn kynþáttaníði í höfuðið á framherja Real Madrid og brasilíska landsliðsins, Vinícius Júnior.

„Vini Jr. lögin“ voru einróma samþykkt af yfirvöldum í Rio í júní og kveða þau á um að hlé verði gert á íþróttaviðburðum, eða þeir alfarið stöðvaðir, ef þátttakendur eða áhorfendur verða uppvísir af kynþáttaníði.

Hinn 22 ára gamli Vinícius varð nokkrum sinnum fyrir kynþáttaníði á síðustu leiktíð í spænsku úrvalsdeildinni, en hann segist stoltur af því að lög sem þessi séu nefnd eftir honum.

„Í dag er einstakur dagur og ég vona að fjölskylda mín sé mjög stolt,“ sagði hann er nafnið var kynnt á Maracana vellinum í Brasilíu þar sem hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Flamengo.

Brasilískir miðlar greina frá því að ástæða þess að lögin hafi verið sett hafi verið vegna þess hvernig Vinícius brást við því að verða fyrir kynþáttaníði í leik með Real Madrid gegn Valencia í maí á þessu ári. Sá leikur var stöðvaður um stund og Vinícius benti dómara leiksins á þá seku uppi í stúku.

Lögin innihalda meðal annars verkferla sem segja til um hvernig bregðast eigi við kvörtunum um kynþáttafordóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×