Innlent

Mátu­legt „túr­ista­gos“ gott fyrir krónuna og verð­bólguna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Magnús Tumi jarðfræðingur sagði á Bylgjunni í morgun að líklega yrði gos nú svipað og fyrri gos. Björn segir „túristagos“ almennt hafa góð áhrif á verðbólguna.
Magnús Tumi jarðfræðingur sagði á Bylgjunni í morgun að líklega yrði gos nú svipað og fyrri gos. Björn segir „túristagos“ almennt hafa góð áhrif á verðbólguna.

„Ferðaþjónustan er orðin mjög mikilvæg atvinnugrein og hjálpar okkur sannarlega í baráttunni við verðbólguna,“ segir Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi um möguleg áhrif elgoss á stöðu efnahagsmála.

Fréttastofa hafði samband við Björn og bað hann um að gefa sér að jarðhræringarnar sem nú standa yfir enduðu í gosi og að gosið myndi verða til þess að auka ferðamannastrauminn hingað til lands.

Hvaða áhrif hefði það, til dæmis á verðbólguna?

Björn segir tvö svör við spurningunni.

Langa svarið sé að menn hafi reynt að leggja mat á virði einstaka ferðamanns í krónum og aurum en það væri flókið og ylti meðal annars á því hvaðan menn væru að koma og hversu lengi þeir dveldu.

„Stutta svarið er að ferðamennska er okkar helsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein í dag og sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þá styður hún mjög við krónuna. Við fáum mikinn gjaldeyri inn í vösunum á ferðamönnum og hversu mikill sá fjöldi er og hversu miklu þessir ferðamenn eyða hefur mjög mikil áhrif á krónuna okkar og þar með á verðlag á innfluttum vörum,“ segir Björn. „Og það vegur ansi þung í innkaupakörfunni okkar og verðbólgunni.“

Með styrkingu krónunnar verði ódýrara að flytja vörur inn, sem dragi svo úr verðbólgunni.

Þannig að eldgos er ekki endilega það versta?

„Nei, ekki þannig lagað,“ svarar Björn og hlær. „En manstu umræðuna um það hvernig þetta getur nú snúist í höndunum á okkur ef þetta fer að hafa neikvæð áhrif á getu okkar til að taka á móti ferðamönnum, ef þetta fer til dæmis að hafa áhrif á starfsemi Keflavíkurflugvallar? Þá getur þetta snúist upp í andhverfu sína.“

Björn segir hins vegar að síðustu gos, sem menn töluðu um sem „túristagos“, hefðu líklega haft töluverð jákvæð áhrif á efnhaginn. „Bæði vegna þess að þau vöktu athygli á landinu en líka vegna þess að þau fjölguðu komum ferðamanna til landsins. Og það er jákvætt fyrir okkur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×