Erlent

Vísinda­menn vara við í­trekuðum náttúru­ham­förum í júlí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sum staðar sést ekki í göturnar í heilu borgarhverfunum.
Sum staðar sést ekki í göturnar í heilu borgarhverfunum. AP/Xinhua/Li Yuyang

Vísindamenn í Kína hafa varað við náttúruhamförum í júlí vegna öfgakenndra veðurviðburða. Forseti landsins, Xi Jinping, hefur hvatt yfirvöld til að gera meira til að bjarga mannslífum og innviðum frá gríðarlegum flóðum sem hafa staðið yfir. 

Þúsundir hafa neyðst til að flýja heimili sín í miðhluta Kína, þar sem flóð hafa sópað með sér heilu íbúðahúsunum og vatn flæðir um heilu borgarhverfin. Þá hrundi lestarbrú í Chongqing eftir að undirstöðurnar gáfu undan flóðvatni.

Yfir 10.000 manns hafa verið fluttir frá heimilum sínum í Hunan-héraði, þar sem fjöldi bygginga hrundi og skemmdirnar eru metnar á um 80 milljónir dala. Þá eru viðvaranir í gildi fyrir Liaoning, Jilin og Heilongjiang.

Flóð eru tíð í Kína en þeim hefur fjölgað vegna hlýnunar.

Vísindamenn hjá veðurstofnun Kína hafa varað við „mörgum náttúruhamförum“ í júlí; miklum hita, miklum flóðum og fellibylum.

Í Pekíng var júní sá heitasti síðan 2000 en hitinn fór yfir 35 gráður í fjórtán daga. Í Shaanxi-héraði var regnmagnið sem féll um helgina sagt viðburður sem gerðist aðeins einu sinni á 50 árum.

Engin dauðsföll hafa orðið vegna flóðanna enn sem komið er en árið 1998 létust 4.000 manns í flóðum í Kína, flestir við ána Yangtze.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×