Erlent

Vegfarandi myrti árásarmann í Tel Aviv

Heimir Már Pétursson skrifar
Bíll árásarmannsins í Tel Aviv í dag.
Bíll árásarmannsins í Tel Aviv í dag. AP/Oded Balilty

Ísraelsmenn hafa haldið hernaðaraðgerðum sínum í flóttamannabúðum í borginni Jenin á Vesturbakkanum áfram í dag. Ellefu Palestínumenn hafa fallið í innrás Ísraelshers í búðirnar, yfir hundrað særst og um 120 verið handteknir.

Yfirlýstur tilgangur Ísraelsmanna með aðgerðinni er að handsama og eyðileggja búðir meintra hryðjuverkamanna í búðunum. The Guardian segir hins vegar að að um hefndaraðgerð hafi verið að ræða eftir að fjórir ólöglegir ísraelskir landtökumenn féllu í skotárásum Palestínumanna.

Ísraelskir landtökumenn flæma Palestínumenn frá jörðum sínum og heimilum og yfirtaka eða eyðileggja eignir þeirra með stuðningi eigin hersveita með velþóknun stjórnvalda í Ísrael. Undanfarin ár hafa þessir landtökumenn smátt og smátt dreift sér ólöglega um stóran hluta Vesturbakkans sem tilheyrir Palestínu, án þess að alþjóðasamfélagið bregðist við með öðru fordæmingum án þess að gripið sé til nokkurra aðgerða.

Um þrjú þúsund manns hafa flúið búðirnar sem eru aflokað hverfi í Jenin.

Íbúar í flóttamannabúðunum í Jenen halda á manni sem ísraelskir hermenn skutu og særðu eftir að hann kastaði sprengju að þeim.AP/Majdi Mohammed

Í dag slösuðust átta manns, þar af tveir alvarlega, eftir að Palestínumaður ók bíl inn í hóp fólks í borginni Tel Aviv í Ísrael. Vegfarandi skaut bílstjórann til bana þegar hann gekk að manninum á meðan hann lá í götunni og skaut í höfuðið af stuttu færi. 

Búið að breiða plastábreiðu yfir lík mannsins sem ók bílnum. Vegfarandi skaut hann til bana eftir að hann keyrði á fólkið.AP/Oded Balilty

Kobi Shabtai lögreglustjóri í Tel Aviv segir ökumanninn hafa verið palestínskan hryðjuverkamanna.

„Einn hryðjuverkamaður var drepinn og átta særðust. Tveir þeirra eru í lífshættu og ástand þriggja er stöðugt. Hinir eru illa slasaðir. Hryðjuverkamaðurinn býr á svæði Palstínumanna og nokkrir tengdir honum voru handteknir. Ég fer ekki út í smáatriði því málið er enn í rannsókn,“ sagði lögreglustjórinn á vettvangi í dag.


Tengdar fréttir

Ók á veg­far­endur og stakk í Tel Aviv

Ungur Palestínumaður ók bíl inn í hóp fólks á strætisvagnabiðstöð og stakk fólk með eggvopni í Tel Aviv í Ísrael í dag. Herskáir hópar Palestínumanna líta á hryðjuverkið sem svar við umfangsmikilli hernaðaraðgerð Ísraela á Vesturbakkanum.

Mesta hernaðaríhlutun Ísraels í 20 ár

Ísraelski herinn réðst í morgun inn í borgina Jenin á yfirráðasvæði Palestínumanna á Vesturbakkanum í veigamestu hernaðaraðgerð sinni þar í um tuttugu ár. Að minnsta kosti átta Palestínumenn hafa verið felldir og tugir særðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×