Fótbolti

Ægir strengdi sér líflínu í fallbaráttunni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Cristofer Moises Rolin skoraði fyrra mark Ægis í leiknum. 
Cristofer Moises Rolin skoraði fyrra mark Ægis í leiknum.  Mynd/Ægir

Ægir vann lífsnauðsynlegan sigur í baráttu sinni um að forðast fall úr Lengjudeild karla í fótbolta þegar liðið sótti Vestra heim á Ísafjörð í níundu umferð deildarinnar í dag. 

Það voru Cristofer Moises Rolin og Baldvin Þór Berndsen sem skoruðu mörk Ægisliðsins í 2-1 sigri en Vladimir Tufegdžić var á skotskónum fyrir Vestra. 

Þetta var fyrsti sigur Ægis í deildinni á yfirstandandi leiktíð en liðið vermir botnsætið með fjögur stig. 

Leiknir Reykjavík er sæti ofar með fimm stig og Njarðvík er sætinu fyrir ofan fallsvæðið með sjö stig. Leiknir Reykjavík og Njarðvík leiða saman hesta sína í fallbaráttuslag á Domusnova-vellinum klukkan 18.00 í kvöld.

Vestri er í níunda sæti deildarinnar með níu stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×