Fótbolti

„Bjóðum velkominn einn frægasta leikmanninn í sögu Liverpool“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Robbie Fowler fagnar marki með Liverpool en með honum er Ian Rush.
 Robbie Fowler fagnar marki með Liverpool en með honum er Ian Rush. Getty/Mark Leech

Robbie Fowler er kominn með nýtt starf en hann réði sig í gær sem þjálfari Al Qadisiyah í Sádí-Arabíu.

Fowler er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Liverpool og er enn eitt fræga nafnið í fótboltaheiminum sem skipir yfir í sádí-arabísku deildina.

„Robbie Fowler. Bjóðum velkominn einn frægasta leikmanninn í sögu Liverpool sem nýjan þjálfara Qadisiyah,“ sagði á Twitter síðu félagsins.

Fowler skoraði 183 mörk fyrir Liverpool en hann spilaði einnig fyrir bæði Leeds United og Manchester City.

Hann byrjaði þjálfaraferil sinn sem spilandi þjálfari hjá Muangthong United í Tælandi 2011-12 en hefur einnig þjálfað í Ástralíu og á Indlandi. Hann hafði ekki fengið starf síðan að hann hætti með indverska félagið East Bengal árið 2021.

Al Qadisiyah sagði ekki frá því hvað samningurinn er langur en Olíurisinn Saudi Aramco er að taka yfir félagið og því ætti að vera nóg af peningum í reksturinn.

Síðan að Cristiano Ronaldo kom til Sádí-Arabíu hafa margir leikmenn fylgt í kjölfarið en í sumar hafa bæst við menn eins og Karim Benzema, N'Golo Kanté, Rúben Neves, Kalidou Koulibaly og Édouard Mendy.

Fowler þarf þó ekki að hafa áhyggjur af þeim í bili því fyrsta verkefni hans er að koma Al Qadisiyah upp í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×