Fótbolti

Ronaldo fær líka landa sinn til að þjálfa sig alveg eins og Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Castro hættir með Botafogo á miðju tímabili og eltir peningana til Sádi-Arabíu.
Luis Castro hættir með Botafogo á miðju tímabili og eltir peningana til Sádi-Arabíu. Getty/Wagner Meier

Cristiano Ronaldo er kominn með nýjan þjálfara hjá Al Nassr í Sádi-Arabíu en félagið hefur verið að leita að nýjum þjálfara síðan í vor.

Nýr þjálfari liðsins er Portúgalinn Luis Castro sem hefur samþykkt að hætta með brasilíska félagið Botafogo til að færa sig fyrir Atlantshafið og til Sádi-Arabíu.

Castro fékk myndarlegt tilboð frá Sádunum og stóðst ekki mátið. Hann mun taka við af Rudi García sem var rekinn í apríl. ESPN segir frá.

Ronaldo fær því landa sinn til að þjálfa sig alveg eins og Lionel Messi sem fékk í gær Argentínumanninn Gerardo „Tata“ Martino til að þjálfa sig hjá bandaríska félaginu Inter Miami.

Samningur Castro við Rio de Janeiro félagið rennur út í árslok en Al Nassr borgar brasilíska félaginu 2,3 milljónir evra til að losa hann en það eru um 344 milljónir íslenskra króna.

Botafogo hafði byrjað tímabilið frábærlega undir stjórn Castro en liðið hefur unnið tíu af fyrstu tólf leikjum sínum og er með sjö stiga forskot á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×