Fótbolti

Viðræður Gylfa og DC United haldi áfram en ekkert tilboð liggi fyrir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er enn í viðræðum við DC United ef marka má miðla vestanhafs.
Gylfi Þór Sigurðsson er enn í viðræðum við DC United ef marka má miðla vestanhafs. Alex Pantling/Getty Images

Viðræður Gylfa Þórs Sigurðssonar og bandaríska MLS-liðsins DC United munu halda áfram næstu daga, en Gylfi hefur þó ekki fengið neitt samningstilboð frá félaginu.

Þetta fullyrðir bandaríski miðillinn PlanetSport, en í vikunni var greint var frá því á öllum helstu miðlum landsins að Gylfi væri í viðræðum við félagið.

„PlanetSport skilur málið þannig að opinbert tilboð hafi ekki enn verið lagt fram, en búist er við því að viðræðurnar muni halda áfram á næstu dögum,“ segir í umfjöllun bandaríska miðilsins.

Þá segir einnig í umfjölluninni að þrátt fyrir að einhverjir breskir miðlar hafi greint frá því að samningar milli Gylfa og DC United væru í höfn þá séu viðræðurnar enn á frumstigi. Einhverjir miðlar, svo sem The Sun, greindu frá því að Gylfi hafi átt að fljúga til Washington á mánudaginn til að klára málið, en þær fréttir áttu ekki við rök að styðjast.

Gylfi hefur ekki leikið fótbolta síðan hann var handtekinn í júlí árið 2021 vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi og hann settur í farbann í kjölfarið. Rannsókn málsins var þó felld niður fyrr á þessu ári og Gylfi er því frjáls ferða sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×