Fótbolti

Kane hafi náð sam­komu­lagi við Bayern sem mun leggja fram annað til­boð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane skorar úr vítaspyrnu gegn Bayern München árið 2019.
Harry Kane skorar úr vítaspyrnu gegn Bayern München árið 2019. Vísir/Getty

Þýska stórveldið Bayern München hefur ekki gefist upp á því að reyna að fá enska landsliðsfyrirliðann Harry Kane í sínar raðir frá Tottenham þrátt fyrir að tilboði þeirra í gær hafi verið hafnað.

Greint var frá því hér á Vísi í gær að Bayern hafi boðið 60 milljónir punda í framherjann, en sú tala er þó eitthvað á reiki. Sumir miðlar greina frá því að um óformlegt boð hafi verið að ræða og að tilboðið hafi hljóðað upp á 60-70 milljónir punda. Samkvæmt heimildarmönnum BBC barst tilboðið þó aldrei.

Hinn rétt tæplega þrítugi Harry Kane hefur verið afar eftirsóttur biti undanfarin ár og hvert stórliðið á fætur öðru hefur reynt að lokka hann yfir til sín. Hingað til hefur hann haldið tryggð við Tottenham, en nú þegar aðeins ár er eftir af samningi hans og fertugsaldurinn er farinn að nálgast virðist Kane vera að hugsa sér til hreyfings.

Ef marka má grein þýska miðilsins Bild um málið er Kane búinn að ná samkomulagi við Bayern og því snýst þetta nú aðeins um það að samkomulag náist á milli félagana tveggja.

Búist er við því að Bayern leggi fram nýtt og betrumbætt tilboð í enska landsliðsfyrirliðan í dag eða á morgun. Liðið hefur verið í framherjaleit síðan Robert Lewandowski yfirgaf félagið fyrir síðasta tímabil og Harry Kane gæti fyllt það skarð sem Pólverjinn skyldi eftir sig.

Kane er markahæsti leikmaður Tottenham frá upphafi með 280 mörk í öllum keppnum og næst markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 213 deildarmörk. Þá er hann einnig markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi með 58 mörk fyrir þjóð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×