Fótbolti

Segja að Gylfi Þór í­hugi að spila í Banda­ríkjunum eða Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lék með Everton í fjögur.
Gylfi Þór Sigurðsson lék með Everton í fjögur. Getty Images/Michael Regan

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson virðist ekki hættur að spila þrátt fyrir að hafa ekki spilað fótbolta síðan í maí 2021. Hann virðist stefna á að spila í Katar eða í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Þetta kom fram í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977. Þar segir að Gylfi Þór sé líka með tilboð frá Val.

„Það hafa verið háværar sögusagnir um að Gylfi Þór gæti farið í Val. Samkvæmt mínum heimildum þá átti sér stað fundur milli hans og Vals,“ sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum.

„Hugur Gylfa Þórs beinist víst frekar að Bandaríkjunum og Katar. Það er möguleiki á því að hann fari í MLS-deildina og þá er víst áhugi frá Al Arabi í Katar,“ bætti Elvar Geir við. Þar með gæti Gylfi Þór orðið samherji Arons Einars.

„Ef Gylfi færi í íslensku deildina, sem ég tel reyndar ólíklegt eins og staðan er núna, þá yrði það bara út tímabilið og fram að því að hann færi út að spila í haust. En það yrði auðvitað ristastórt fyrir Bestu deildina ef það myndi gerast,“ sagði Elvar Geir að endingu. Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér að ofan.

Gylfi Þór hefur ekki spilað síðan í maí 2021 eftir að hann var handtekinn af lögreglunni í Bretlandseyjum vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstakling. Hann var þá leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi Þór var í farbanni á meðan rannsókn fór fram en hún var látin falla niður fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×