Fótbolti

Osasuna fær ekki að keppa í Sam­bands­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markvörðurinn Aitor Fernandez fær ekki að spila í Sambandsdeild Evrópu ef ákvörðun UEFA stendur.
Markvörðurinn Aitor Fernandez fær ekki að spila í Sambandsdeild Evrópu ef ákvörðun UEFA stendur. Ion Alcoba/Getty Images

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið að spænska félagið Osasuna fái ekki að taka þátt í Sambandsdeild Evrópu á komandi leiktíð þrátt fyrir að hafa unnið sér inn sæti í keppninni á nýafstöðnu tímabili.

Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins þar sem það svarar UEFA fullum hálsi og segir sambandið eingöngu standa við bakið á stærri liðum álfunnar.

Ástæðan fyrir banninu er sú að tímabilið 2013-14 reyndi félagið að hagræða úrslitum leikja í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni. Á endanum voru Miguel Archanco, forseti félagsins, og fimm aðrir háttsettir aðilar innan þess, dæmdir í fangelsi sem og félagið var sektað um 650 þúsund evrur [97 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag].

Osasuna segist ætla að áfrýja niðurstöðu UEFA þar sem félagið hefur eytt síðustu níu árum i að byggja sig upp á nýjan leik eftir að hafa fallið um deild vorið 2014.

„Við undirbúum okkur undir það versta en megum ekki yfirgefa mottó félagsins sem er helsta ástæða uppbyggingarinnar sem hefur átt sér stað undanfarin ár: Osasuna gefst aldrei upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×