Erlent

Fundu brak sem sagt er vera úr kaf­bátnum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Kafbáturinn Titan týndist síðastliðinn sunnudagsmorgun.
Kafbáturinn Titan týndist síðastliðinn sunnudagsmorgun. AP

Brak fannst á svæðinu þar sem kafbátsins Titan, sem týndist í nágrenni við Titanic um helgina, er leitað. Samkvæmt köfunarsérfræðingi og vini farþega um borð í kafbátnum tilheyrir brakið Titan.

David Mearns er köfunarsérfræðingurinn sem um ræðir en í samtali við BBC fullyrðir hann að brakið sé úr kafbátnum. Samkvæmt honum er lendingarbúnaður kafbátsins á meðal þess sem fannst. Þá herma heimildir breska fjölmiðilsins að glugginn framan á kafbátnum hafi einnig fundist.

Áður en Mearns sagði frá þessu hafði bandaríska landhelgisgæslan gefið út að brak hefði fundist á svæðinu. Gæslan hefur boðað til fjölmiðlafundar klukkan 19:00 á íslenskum tíma.

Fimm manns voru í bátnum þegar hann týndist. Stockton Rush, eigandi OceanGate Expeditions og kafbátsins, breski auðjöfurinn Haimsh Harding, Shahzada Dawood og nítján ára sonur hans Suleman, sem eru úr einni auðugustu fjölskyldu Pakistan, og hinn 73 ára gamli Paul-Henry Nargeolet, franskur landkönnuður.

Hópurinn var á leið að flaki Titanic á sunnudaginn. Samband við kafbátinn slitnaði þegar um klukkustund og 45 mínútur voru liðnar af ferðinni en hún átti að taka um tvo og hálfan tíma. 

Fyrr í dag var byrjað að nota fjarstýrðan kafbát til að leita bátarins en þá voru áætlaðar súrefnisbirgðir við það að klárast. Þegar kafbáturinn lagði af stað var hann með súrefnisbirgðir fyrir 96 klukkustundir en lengri tími er liðinn síðan hann týndist. 

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×