Fótbolti

Ronaldo þakkar Íslandi fyrir sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ronaldo varð í gær fyrsti karlinn til að ná 200 leikjum fyrir þjóð sína.
Ronaldo varð í gær fyrsti karlinn til að ná 200 leikjum fyrir þjóð sína. Vísir/Vilhelm

Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, komst í heimsmetabók Guinness er hann lék með portúgalska landsliðinu gegn því íslenska í gær.

Ronaldo var að spila sinn 200. landsleik í gær og verð þar með fyrsti karlinn til að ná þeim merka áfanga. Hann skoraði eina mark leiksins er Portúgal vann nauman 1-0 sigur gegn Íslandi í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í gær.

Ronaldo var eðlilega sáttur eftir leik gærdagsins, og raunar var hann hinn kátasti í heimsókn sinni til landsins. Hann sló meðal annars á létta strengi á blaðamannafundi portúgalska liðsins á föstudag og hafði litlar áhyggjur af því þegar ungur drengur hljóp inn á Laugardalsvöll að leik loknum í gær.

Eftir leik mætti Ronaldo svo í viðtal sem birtist á Twitter-reikningi Euro 2024. Þar þakkaði hann Íslandi kærlega fyrir sig.

„Ég er svo glaður. Það eru svona augnablik sem þú býst aldrei við, að ná 200 leikjum með landsliðinu,“ sagði Ronaldo.

„Fyrir mér er þetta er ótrúlegt afrek og að vera kominn í heimsmetabók Guinness er magnað. Að skora sigurmarkið gerir þetta svo enn magnaðra. Þannig að ég verð að fá að þakka áhorfendum á vellinum, Íslandi og stuðningsmönnum fyrir að búa til þessa veislu fyrir mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×