Fótbolti

Hljóp inn á völlinn og knúsaði Ronaldo

Máni Snær Þorláksson skrifar
Drengurinn fékk sjálfu af sér með Cristiano Ronaldo. Hann er greinilega mikill aðdáandi enda klæddur í bol með mynd af leikmanninum.
Drengurinn fékk sjálfu af sér með Cristiano Ronaldo. Hann er greinilega mikill aðdáandi enda klæddur í bol með mynd af leikmanninum. Vísir/Vilhelm

Ungur drengur hljóp inn á Laugardalsvöll að loknum leik Íslands og Portúgal. Drengurinn hljóp í átt að Cristiano Ronaldo og hoppaði í fangið á honum. Í kjölfarið fékk hann svo mynd með kappanum sem skoraði sigurmarkið gegn Íslandi.

Það virðist vera sem drengurinn hafi verið með skýrt markmið í huga þegar hann hljóp inn á völlinn því hann brunaði beinustu leið í átt að Ronaldo. 

Klippa: Hljóp inn á völlinn og knúsaði Ronaldo

Öryggisverðir í gulum vestum eltu drenginn inn á völlinn en Ronaldo tók á móti drengnum og fékk sjálfu af sér með honum. Eftir það fylgdu öryggisverðirnir drengnum í burtu af vellinum.

Það munaði ekki miklu að Íslandi tækist að næla í stig á móti Portúgal í leiknum í kvöld. Allt var ennþá jafnt þegar um 80 mínútur voru liðnar af leiknum en þá fékk Willum Þór Willumsson að líta sitt annað gula spjald og var því rekinn af velli.

Portúgal náði að nýta sér það að vera manni fleiri á síðustu mínútu venjulegs leiktíma þegar Ronaldo skoraði sigurmarkið. Það var þó vafi um það hvort markið myndi standa en eftir nokkrar mínútur fékkst markið staðfest með aðstoð VAR.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×