Fótbolti

Mættur aftur til Celtic eftir að vera sparkað frá Leicester City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brendan Rodgers er mættur til Skotlands á ný.
Brendan Rodgers er mættur til Skotlands á ný. James Williamson/Getty Images

Knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers er tekinn við skoska stórveldinu Celtic á nýjan leik.

Hinn fimmtugi Rodgers stýrði Celtic frá 2016 til 2019 við góðan orðstýr. Undir hans stjórn varð Celtic tvívegis skoskur meistari, tvívegis skoskur bikarmeistari og þrívegis vann liðið skoska deildarbikarinn.

Rodgers tók svo við Leicester City í ensku úrvalsdeildinni árið 2019 og vann meðal annars ensku bikarkeppnina vorið 2021 og Góðgerðarskjöldinn sama ár. Hann var hins vegar látinn fara frá Leicester City fyrr á þessu ári þar sem liðið var í bullandi fallbaráttu. Skilaði það ekki tilætluðum árangri og leikur Leicester í ensku B-deildinni á næstu leiktíð.

Rodgers var ekki lengi að finna sér nýtt lið en hann snýr aftur í faðm Celtic sem var án þjálfara þar sem Ange Postecoglou tók við Tottenham Hotspur á dögunum.

Rodgers skrifar undir þriggja ára samning við Celtic sem vonast til að sambandið verði jafn farsælt og áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×