Fótbolti

Gerrard að taka við liði í Sádi-Arabíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Gerrard gæti tekið við Al-Ettifaq í sádiarabísku úrvalsdeildinni.
Steven Gerrard gæti tekið við Al-Ettifaq í sádiarabísku úrvalsdeildinni. Michael Regan - UEFA/UEFA via Getty Images

Steven Gerrard, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er sagður vera á leið til Sádi-Arabíu til að taka við liði Al-Ettifaq í úrvalsdeildinni þar í landi.

Það eru hinir ýmsu miðlar sem greina frá því að Gerrard gæti verið að snúa aftur í þjálfun og að Al-Ettifaq verði hans næsti viðkomustaður. Gerrard hefur ekki starfað við þjálfun síðan hann var látinn fara frá Aston Villa í október á síðasta ári.

Samkvæmt umfjöllun Reuters um málið hafa forráðamenn Al-Ettifaq sett sig í samband við Gerrard og boðið honum starfið. Fyrrverandi Liverpool-maðurinn hafi takið vel í boðið, en beðið um tíma til að hugsa sig um.

„Al-Ettifaq er búið að leggja fram tilboð. Hann tók vel í boðið, en bað um að fá tíma til að hugsa sig um,“ segir heimildarmaður Reuters.

Á þjálfaraferli sínum hefur Gerrard stýrt Aston Villa og skoska liðinu Rangers. Hann gerði Rangers að skoskum meisturum tímabilið 2020-21, en var látinn fara frá Aston Villa í október á síðasta ári eftir rétt tæt ár í starfi.

Al-Ettifaq hafnaði í sjöunda sæti sádiarabísku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili með 37 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×