Innlent

Mikil­vægt og löngu tíma­bært skref að banna bælingar­með­ferðir

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, segir samtökin gleðjast yfir því að frumvarp um bann við bælingarmeðferðum hafi loks verið samþykkt. 
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, segir samtökin gleðjast yfir því að frumvarp um bann við bælingarmeðferðum hafi loks verið samþykkt.  Vísir/Ívar Fannar

Frumvarp sem gerir svokallaðar bælingarmeðferðir refsiverðar var samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi í gær. Formaður Samtakanna 78 segir það gríðarlega mikilvægt og löngu tímabært skref.

Bælingarmeðferð kallast það þegar fólk er látið sæta meðferð til að bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu þess. Slíkar meðferðir hafa verið framkvæmdar víða, bæði hérlendis sem erlendis. Þá hefur verið byggt á þeirri trú að unnt sé að lækna náttúrulega kynhneigð og kynvitund fólks. 

Með nýju lögunum verður nú refsivert að láta einstakling undirgangast slíka meðferð með nauðung, blekkingum eða hótunum, að láta barn undirgangast slíka meðferð hér á landi eða erlendis. Ásamt því að bann sé lagt við framkvæmd slíkra meðferða auk þess að hvetja til þeirra eða þiggja fé vegna þeirra. Brot geta varðað allt að fimm ára fangelsi. Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna 78, segir þetta mikilvæga breytingu.

„Það sem þetta gerir líka er að þetta sýnir að Alþingi skilur að kynhneigð og kynvitund er eitthvað sem við getum ekki breytt. Heldur eitthvað sem að ja fólk lifir með og er sátt við í mörgum tilfellum en það sýnir líka að það er hreint og klárt ofbeldi að gera tilraunir til að reyna breyta kynvitund eða kynhneigð og það er gríðarlega mikilvægt skref fyrir okkur,“ segir Álfur Birkir. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en að því stóðu tólf aðrir þingmenn. „Við bara gleðjumst því að þetta sé loksins komið í gegn. Eins og við sjáum var greinilega mikill meirihluti fyrir þessu á þingi,“ segir Álfur Birkir. Frumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta, 53 sögðu já, þrír greiddu ekki atkvæði og sjö voru fjarstaddir í gær.


Tengdar fréttir

Metfjöldi umsagna um frumvarp sem bannar bælingarmeðferð

Metfjöldi umsagna hefur borist um frumvarp stjórnvalda á Nýja-Sjálandi sem bannar svokallaðar bælingarmeðferðir (e. conversion therapy) gegn samkynhneigð. Stuðningsmenn eru vongóðir um að meirihluti umsagnaraðila séu fylgjandi frumvarpinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×