Alþingi lýkur störfum fyrir sumarleyfi í dag eða kvöld. Þingfundur hófst klukkan ellefu á seinni umræðu um fjármálaáætlun 2024 til 2028 og síðan tekur við fjöldi atkvæðagreiðslna um hin ólíkustu mál.

Þeirra á meðal er frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra sem rýmkar mjög heimildir fólks utan Evrópska efnahagssvæðisins til dvalar og starfa á Íslandi, frumvarp um mótvægisaðgerðir til hækkunar greiðslna til fólks í almannatryggingakerfinu vegna mikillar verðbólgu og frumvarp um lækkun á annars rúmlega sex prósenta hækkun launa æðstu embættismanna.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar var fyrstur á mælendaskrá í lokaumræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann gerði stöðu heilbrigðismála að umræðuefni og sagði ríkisstjórnina ekki hafa staðið við fyrirheit sín um eflingu hennar og vitnaði í umsögn Landsspítalans við fjármálaáætlunina.
„Fjárframlög til spítalans og til reksturs spítalans duga ekki til að hann geti haldið óbreyttu þjónustustigi. Með tillti til fólksfjölgunar, hækkandi meðalaldurs og fjölgunar ferðamanna. Það vantar 160 hjúkrunarfræðinga og 50 sjúkraliða til starfa og margar starfseiningar hafa varla rétt úr kútnum eftir heimsfaraldur,“ sagði Jóhann Páll meðal annars.

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði ríkisstjórnina hafa gripið til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða vegna mikillar verðbólgu og þróttar í atvinnulífinu. Ríkisstjórnin hefði á sama tíma staðið með þeim sem minnst hefðu milli handanna.
Þannig hefðu bætur almannatrygginga hækkað um tæp 9 prósent í fyrra, 7,4 prósent í upphafi þessa árs og til stæði að hækka þær um 2,5 prósent til viðbótar.
„Frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækkaði í 200 þúsund krónur í upphafi þessa árs. Húsnæðisbætur hafa hækkað um fjórðung frá síðasta ári og tekjumörk hækkuð til jafns við hækkun bóta. Barnabætur hafa hækkað mikið að raunvirði undanfarin ár og fleiri fjölskyldur eiga kost á stuðningi en áður,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson.