Fótbolti

Inter Miami reynir einnig fá Di María og Busquets

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Inter Miami vill fá þá Ángel Di María og Sergio Busquets til liðs við sig. Hér mætast þeir félagar í El Clasico árið 2011.
Inter Miami vill fá þá Ángel Di María og Sergio Busquets til liðs við sig. Hér mætast þeir félagar í El Clasico árið 2011. Jasper Juinen/Getty Images

Inter Miami ætlar sér greinilega stóra hluti í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu á komandi mánuðum. Lionel Messi er á leið til félagsins og nú berast fréttir af því að liðið ætli sér einnig að klófesta þá Ángel Di María og Sergio Busquets.

Bæði Di María og Busquets þekkja það vel að spila með Messi. Di María á að baki 131 leik fyrir argentínska landsliðið og gera má ráð fyrir því að flestir þeirra hafi verið með Messi og Busquets hefur leikið með Barcelona frá árinu 2008 þar sem hann var liðsfélagi argentínska töframannsins til ársins 2021.

Það er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá áhuga Inter Miami á því að fá þá Di María og Busquets til liðs við sig.

Þrátt fyrir áhuga Inter Miami greinir Romano þó frá því að Di María vilji helst halda kyrru fyrir í Evrópu. Bæði Di María og Busquets eru samningslausir og geta því ákveðið framtíð sína sjálfir.

Ákveði þeir félagar að ganga til liðs við Inter Miami er ekki beint hægt að segja að liðið sé að safna í ungan og efnilegan leikmannahóp. Di María og Busquets verða báðir 35 ára gamlir á árinu og Messi er árinu eldri.

Inter Miami situr í neðsta sæti Austurdeildar MLS-deildarinnar með 15 stig eftir 16 leiki, átta stigum á eftir Guðlaugi Victori Pálssyni og félögum í DC United sem sitja í sjöunda og seinasta örugga úrslitakeppnissætinu. Það er því ljós að liðið hefur verk að vinna.


Tengdar fréttir

Messi staðfestir skiptin til Inter Miami

Lionel Messi hefur nú staðfest að hann sé orðinn leikmaður Inter Miami. Bandaríska liðið hefur sömuleiðis staðfest komu Messi á Twitter.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.