Erlent

Nyrsta sjúkraflug sögunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá flugvellinum í Longyearbyen á Svalbarða.
Frá flugvellinum í Longyearbyen á Svalbarða. Getty/Steffen Trumpf

Norskir þyrluflugmenn fóru nýverið í nyrsta sjúkraflug sögunnar. Veikur sjómaður var sóttur í rússneskt rannsóknaskip sem var statt nærri norðurpólnum.

Miðillinn The Barents Observer segir að beiðni um sjúkraflug hafi borist frá björgunarmiðstöð í Múrmansk í Rússlandi. Læknir um borð í skipinu Severny Polyus hafði þá beðið um aðstoð vegna veiks sjómanns sem þurfti að komast á sjúkrahús sem fyrst.

Flogið var frá Longyearbyen á Svalbarða, þar sem næsta björgunarþyrlur voru. Þær eru af gerðinni Super Puma AWSAR en áhöfnin þurfti að fljúga til skipsins sem var statt á 86 breiddargráðu. Það er við hámark þeirrar vegalengdar sem hægt er að fljúga þyrlunum en búið var að sjá það fyrir.

Búið er að koma fyrir eldsneytisbirgðum í Vindbukta á norðurströnd Svalbarða, sem eru ætlaðar fyrir flugferðir sem þessar. Samkvæmt Barents Observer gátu flugmennirnir lent þar, fyllt á tanka sína og haldið áfram til skipsins, þar sem þeir fengu aftur eldsneyti.

Flugferðin tók fimm tíma í hvort átt, samkvæmt NRK, og ku þetta vera sú sjúkraflugsferð þar sem farið hefur verið lengst norður.

Severny Polyus festist í hafís í otóber í fyrra og hefur rekið til vesturs.

Samkvæmt yfirvöldum í Noregi fór allt vel en ekki hefur verið gefið upp hvað amaði að sjómanninum. Hann verður líklega fluttur á sjúkrahús á meginlandi Noregs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×