Fótbolti

Messi valdi Miami

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi lék með Paris Saint-Germain í tvö ár.
Lionel Messi lék með Paris Saint-Germain í tvö ár. getty/Tim Clayton

Argentínski snillingurinn Lionel Messi mun ganga í raðir bandaríska MLS-liðsins Inter Miami.

Íþróttafréttamaðurinn Guillem Balague greindi frá þessu í dag. Hann segir að Miami hafi orðið fyrir valinu hjá Messi.

Messi hefur yfirgefið Paris Saint-Germain eftir tvö tímabil í frönsku höfuðborginni. Hann fékk risatilboð frá Sádí-Arabíu og þá vildi Barcelona fá hann aftur „heim“ til Katalóníu. En Messi virðist vera á leið til Miami.

David Beckham er eigandi Inter Miami sem er í fimmtánda og neðsta sæti Austurdeildar MLS. Í síðustu viku rak Beckham sinn gamla félaga úr Manchester United og enska landsliðinu, Phil Neville, sem þjálfara Inter Miami.

Hinn 35 ára Messi lék með Barcelona til 2021 þegar hann gekk í raðir PSG. Hann varð tvisvar sinnum Frakklandsmeistari með Parísarliðinu.

Undir lok síðasta árs varð langþráður draumur Messis að veruleika þegar Argentína varð heimsmeistari. Messi var valinn besti leikmaður HM og næstmarkahæsti leikmaður keppninnar með sjö mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.