Fótbolti

Lykilmenn Milan hugsa sér til hreyfings eftir brottrekstur Maldinis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mike Maignan og Rafael Leao eru meðal leikmanna AC Milan sem eru ósáttir við brottrekstur Paolos Maldini.
Mike Maignan og Rafael Leao eru meðal leikmanna AC Milan sem eru ósáttir við brottrekstur Paolos Maldini. getty/Claudio Villa

Sú ákvörðun forráðamanna AC Milan að segja Paolo Maldini upp sem tæknilegs stjórnanda gæti dregið dilk á eftir. Fjórir stjörnuleikmenn liðsins hugsa sér til hreyfings.

Maldini og íþróttastjóri Milan, Ricky Massara, voru reknir frá félaginu eftir hitafund með eigandanum Gerry Cardinale í fyrradag. Maldini er í guðatölu hjá Milan en hann lék með liðinu allan sinn feril, frá 1984 til 2009. Hann varð sjö sinnum ítalskur meistari með Milan og fimm sinnum Evrópumeistari.

Ákvörðunin að reka Maldini hefur ekki mælst vel fyrir hjá nokkrum af mikilvægustu leikmönnum Milan. Meðal þeirra eru frönsku landsliðsmennirnir Theo Hernández og Mike Maignan, Sandro Tonali og Rafael Leao.

Sá síðastnefndi er nýbúinn að skrifa undir langtíma samning við Milan. Hann gaf í skyn að hann væri ósáttur við brottrekstur Maldinis með færslu á Twitter í fyrradag.

Ljóst er að ýmis félög munu horfa hýru auga til fjórmenninganna sem áttu risastóran þátt í að Milan varð ítalskur meistari í fyrra og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í vetur.

Maignan og Leao hafa báðir verið orðaðir við Chelsea þótt það verði hægara sagt en gert að fá þann síðarnefnda, svo skömmu eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við Milan.

Á nýafstöðnu tímabili endaði Milan í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×