Fótbolti

Segja að Maldini hafa verið rekinn frá Milan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paolo Maldini starfar ekki lengur hjá sínu ástkæra félagi, AC Milan.
Paolo Maldini starfar ekki lengur hjá sínu ástkæra félagi, AC Milan. getty/Giuseppe Cottini

Paolo Maldini ku hafa verið rekinn frá AC Milan eftir hitafund með eiganda félagsins, Gerry Cardinale.

Maldini tók við sem stjórnandi hjá Milan 2018 og þykir hafa gert afar góða hluti í starfi. Milan varð ítalskur meistari í fyrra eftir ellefu ára bið.

En nú virðast leiðir hafa skilið. Maldini og íþróttastjóri Milan, Ricky Massara, hittu Cardinale eftir að tímabilinu lauk um helgina og sá fundur gekk illa. 

Aðilar voru ekki sammála um hvaða stefnu Milan ætti að taka á næstu árum og samkvæmt erlendum fjölmiðlum hafa bæði Maldini og Massara verið látnir fara frá félaginu.

Maldini er í guðatölu hjá Milan en hann lék með liðinu allan sinn feril, frá 1984 til 2009. Hann varð sjö sinnum ítalskur meistari með Milan og fimm sinnum Evrópumeistari.

Milan endaði í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar í vetur og komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×