Gundogan hetjan þegar City varð bikar­meistari

Erling Haaland með FA-bikarinn.
Erling Haaland með FA-bikarinn. Vísir/Getty

Manchester City er bikarmeistari í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Manchester United í úrslitaleik í dag. Ilkay Gundogan skoraði bæði mörk City í leiknum.

Leikurinn í dag byrjaði heldur betur fjörlega því Ilkay Gundogan skoraði strax eftir þrettán sekúndur en aldrei hefur verið skorað jafn snemma í úrslitaleik. Fyrra metið átti Loui Saha sem skoraði eftir 25 sekúndur í úrslitaleik Chelsea og Everton árið 2009.

Lið Manchester City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum, hélt boltanum ágætlega en lítið var um opið færi. Þegar rúmar tíu mínútur voru til hálfleiks fékk Manchester United hins vegar vítaspyrnu.

Aaron Wan-Bissaka ætlaði þá að skalla boltann inn í teig City en boltinn fór í höndina á Jack Grealish. Paul Tierney dómari fór í skjáinn og var ekki lengi að ákveða sig. Bruno Fernandes steig fram og skoraði af miklu öryggi framhjá Stefan Ortega í marki City en þetta var fyrsta markið sem liðið fékk á sig í FA-bikarnum á þessu tímabili.

Staðan í hálfleik var 1-1 en snemma í síðari hálfleiknum kom sigurmarkið. Boltinn barst þá til Ilkay Gundogan sem skaut að marki við vítateig og David De Gea náði ekki að verja. Skot Gundogan var ekki fast en De Gea sá boltann seint.

Eftir þetta reyndi United hvað það gat til að jafna metin. John Stones bjargaði á marklínu undir lokin eftir atgang í teignum. Það var það næsta sem United komst til að skora og leikmenn Manchester City fögnuðu sigrinum vel í leikslok.

Þetta er sjöundi bikarmeistaratitill City og liðið á nú möguleika á að vinna þrefalt á tímabilinu en næsta laugardag mætir City liði Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.