Fótbolti

Fyrrverandi lands­liðs­maður Hollands grunaður um stór­fellt kókaín­smygl

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Quincy Promes er grunaður um að hafa átt hlut í stórfelldu kókaínsmygli.
Quincy Promes er grunaður um að hafa átt hlut í stórfelldu kókaínsmygli. Marcel ter Bals/BSR Agency/Getty Images

Quincy Promes, leikmaður Spartak Moskvu og fyrrverandi leikmaður hollenska landsliðsins í fótbolta, er grunaður um að eiga þátt í stórfelldu kókaínsmygli til heimalandsins.

Samkvæmt hollenska saksóknaraembættinu á Promes að hafa átt þátt í því að smygla 1.362 kílóum af kókaíni til Hollands eða Belgíu. Hol­lenska dag­blaðið Het Parool segir frá því að málið verði tekið fyrir við hollenskan dómstól næstkomandi mánudag.

Promes er 31 árs gamall framherji sem á að baki 50 leiki fyrir hollenska landsliðið. Hann gekk í raðir Spartak Moskvu árið 2021, en hefur einnig leikið fyrir lið á borð við Ajax, Sevilla og Twente.

Orðinn góðkunningi lögreglu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikmaðurinn kemst í kast við lögin, en árið 2021 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Það mál kom upp þegar hann var þegar orðinn leikmaður Spartak Moskvu, en atvikið átti sér stað ári áður þegar hann var enn leikmaður Ajax í heimalandi sínu.

Þar mun Promes hafa lent í áflogum við skyldmenni sitt sem endaði með því að fjölskyldumeðlimurinn var stunginn með hníf og hlaut alvarleg meiðsli. Þá ku sá hinn sami einnig hafa meiðst á hné í áflogunum.

Promes var í kjölfarið ákærður fyrir líkamsárás og tilraun til manndráps og verður það mál sömu­leiðis tekið fyr­ir rétti á mánu­dag­inn kem­ur.

Leikmaðurinn hefur alla tíð neitað sök í málinu sem lítur að líkamsárás og tilraun til manndráps, en hefur ekki tjáð sig um kókaínsmyglið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×