Prýðifélagið Skjöldur, íbúasamtök Skerjafjarðar, afhentu umhverfisráðherra í dag ályktun samtakanna þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum í Skerjafirði er mótmælt. Gert er ráð fyrir fjórtán hundruð íbúðum sem rúma um 3500 manns í nýju deiliskipulagi og gæti íbúafjöldi hverfisins því sexfaldast.
Samráðsleysið algjört
Formaður félagsins segir mótmæli íbúa tvíþætt. „Við erum að berjast fyrir því að það verði hætt við þessi áform að byggja á þessu svæði. vegna þess að þetta er mengaðasta svæðið á höfuðborgarsvæðinu og svo er það náttúran sem er til staðar sem á að fara eyðileggja,“ segir Eggert Hjartarson formaður félagsins.
Íbúar Skerjafjarðar fjölmenntu á íbúafund í Öskju í síðustu viku þar sem fyrirhuguð íbúa byggð var rædd. Þeir segjast ósáttir við samráðsleysi og litla upplýsingagjöf borgarinnar. „Það virðist bara vera búið að ákveða þetta og við höfum ekki fengið að hafa neitt um það að segja,“ segir Eggert.
Stöðva þurfi áformin
Umhverfisráðherra tekur undir áhyggjur íbúa og hyggst skoða málið þrátt fyrir að það liggi hjá borginni. Ósnortin strandlengja sé fáséð á höfuðborgarsvæðinu og lítið um græn svæði.
„Það hefur verið af hálfu borgaryfirvalda mikill ágangur á grænu svæðin sem ég held að sé einsdæmi á heimsvísu. Þær borgir sem við berum okkur saman við þær leggja sig í líma við að viðhalda grænum svæðum og auðvitað er það markmið allra þjóða sem við berum okkur saman við að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni,“ segir Guðlaugur Þór Gunnlaugsson umhverfisráðherra.
Hann segir yfirgnæfandi rök fyrir því að fara ekki í framkvæmdirnar. „Og ég bendi á það að skaðinn er þannig að ef að menn fara í þessar aðgerðir þá verður ekki aftur snúið og þetta er óafturkræft,“ segir hann jafnframt.