Innlent

MAST sviptir bændur leyfi til dýrahalds

Samúel Karl Ólason skrifar
Matvælastofnun hefur svipt umrætt fólk leyfi til dýrahalds tímabundið og vill að það verði gert til lengri tíma.
Matvælastofnun hefur svipt umrætt fólk leyfi til dýrahalds tímabundið og vill að það verði gert til lengri tíma. Vísir/Eiður

Starfsmenn Matvælastofnunar hafa lagt fram beiðni til lögreglu um að ábúendur á bóndabæ á Vesturlandi verði meinað að hafa dýr í þeirra umsjá. Beiðnin byggir á lögum um velferð dýra en í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að eftirlit á bænum hafi leitt í ljós óviðunandi ástand þar.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ábúendur á bænum hafi þegar losað sig við öll dýr en ekki kemur fram hvenær það var gert.

Beiðnin til lögreglunnar snýr að því að meina ábúendum á bænum að halda dýr í framtíðinni. MAST hefur þegar sett á slíkt bann, sem gildir tímabundið þar til dómur hefur fallið vegna áðurnefndrar kröfu til lögreglu.

Úr lögum um velferð dýra:

Hafi aðili gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim má svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti.

Sama gildir ef ljóst þykir að aðili hafi ekki getu til að annast dýr, sbr. 10. gr. Heimildarsvipting getur lotið að dýrum almennt eða einstökum tegundum og staðið tiltekið tímabil eða ævilangt. Ákæruvaldið getur haft uppi kröfu um heimildarsviptingu í sakamáli hvort sem krafist er refsingar á hendur sakborningi eða ekki. Sá sem sviptur er heimild samkvæmt þessari málsgrein og skeytir ekki dómi um heimildarsviptingu skal sæta sektum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×