Fótbolti

Lionel Messi og Xavi eru í stöðugu sambandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez og Leo Messi léku lengi saman en munu þeir vinna aftur saman hjá Barcelona?
Xavi Hernandez og Leo Messi léku lengi saman en munu þeir vinna aftur saman hjá Barcelona? Getty/Xavier Bonilla

Xavi, þjálfari Barcelona, segist vera í góðu sambandi við Lionel Messi um mögulega endurkomu Argentínumannsins til Katalóníufélagsins en að þetta sé algjörlega undir Messi komið.

Hinn 35 ára gamli Messi yfirgaf Barcelona fyirr tveimur árum þegar samningur hans rann út. Hann samdi við franska liðið Paris Saint Germain en er nú aftur samningslaus í sumar.

„Varðandi það sem ég ræð, sem er fótboltahliðin, þá er enginn vafi á því að Messi muni hjálpa okkur ef hann kemur aftur til okkar,“ sagði Xavi við blaðamann Diario Sport.

„Ég gerði forsetanum það ljóst að ég vil fá Messi. Ég efast ekkert um þetta því hann er leikmaður sem gerir gæfumuninn. Hann er enn hungraður, hann er sigurvegari og hann er leiðtogi,“ sagði Xavi.

„Við höfum ekki lið sem sömu hæfileika og það hafði árið 2010 en hvað kemur Messi með? Hann kemur með hæfileika. Hann getur komið með þessa úrslitasendingu, tekur aukaspyrnur og skorar mörk. Hann breytir öllu fyrir sitt lið á síðasta þriðjunginum,“ sagði Xavi.

„Þess vegna og vegna þess hvernig ég vil spila þá er enginn vafi í mínum huga að hann myndi bæta mikið við liðið. Þetta er samt alveg undir honum komið,“ sagði Xavi.

Messi hefur verið orðaður við lið Al-Hilal í Sádí-Arabíu en segir að ekkert sé enn frágengið þrátt fyrir að hafa fengið mettilboð þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×