Fótbolti

Hlín bjargaði stigi fyrir Kristian­stad | Birkir spilaði loks fyrir Viking

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir er samningsbundin Kristianstad til 2024.
Hlín Eiríksdóttir er samningsbundin Kristianstad til 2024. kdff.nu

Hlín Eiríksdóttir skoraði eina mark Kristianstad í 1-1 jafntefli við Hammarby í sænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag. Birkir Bjarnason spilaði loks fyrir Viking í norsku úrvalsdeildinni þegar liðið steinlá gegn Bodö/Glimt.

Svíþjóð

Hlín var eini Íslendingurinn í byrjunarliði Kristianstad í dag. Hún spilaði allan leikinn á hægri vængnum í 3-4-3 leikkerfi heimaliðsins. Markið skoraði hún á 88. mínútu eftir sendingu frá Miu Carlsson en Hammarby hafði komist yfir fimm mínútum áður.

Mörkin urðu ekki fleiri og leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Amanda Andradóttir sat allan tímann á varamannabekk Kristianstad.

Kristianstad er í 4. sæti deildarinnar með 20 stig að loknum 10 umerðum, fimm minna en topplið Häcken.

Í úrvalsdeild karla unnu meistarar Häcken 4-1 stórsigur á Gautaborg. Valgeir Lunddal Friðriksson spilaði allan leikinn í hægri bakverði meistaranna. Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson sat allan tímann á varamannabekk Gautaborgar. Häcken er í 3. sæti með 22 stig, þremur minna en topplið Eflsborg og Malmö.

Noregur

Í Noregi var Birkir Bjarnason í byrjunarliði Viking líkt og Patrik Sigurður Gunnarsson þegar liðið sótti Bodö/Glimt heim. Þeir vilja eflaust gleyma leiknum sem fyrst en Bodö/Glimt vann þægilegan 5-1 sigur.

Birkir var tekinn af velli eftir klukkustund á meðan Patrik Sigurður stóð vaktina í markinu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Kristall Máni Ingason spilaði tæpan hálftíma í 3-1 tapi Rosenborg gegn Brann. Ísak Snær Þorvaldsson var ekki með Rosenborg.

Ari Leifsson spilaði allan leikinn í liði Strömsgodset þegar það gerði 1-1 jafntefli við Odd á útivelli. Sömu sögu er að segja af Brynjari Inga Bjarnasyni en lið hans, Ham Kam, gerði markalaust jafntefli við Lilleström.

Viking er í 4. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 8 leiki. Rosenborg er í 11. sæti með 9 stig að loknum 9 leikjum. Strömsgodset kemur þar á eftir með 8 stig og Ham-Kam með 7 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×